top of page

Ísaldir

Ísaldir eru án nokkurs vafa einhverjar mestu hamfarir sem skollið geta á jörðinni. Skyndileg lækkun hitastigs á jörðinni getur ollið margfaldri stækkun heimskautaíssins, sem riðst þá fram og hlífir engum. 

Það var ekki fyrr en um miðja 19. öld sem ísaldarkenningin fékk almenna viðurenningu vísindamanna. Þá hafði mönnum lengi grunað að miklar loftlagsbreytingar hefðu orðið á jörðinni, og ís hulið stærri svæði en hann gerir nú. Má rekja þann grun til ummerkja um jökla víða um heim, þar sem nú er íslaust. Má nefna að greinileg ummerki um skriðjökla hafa fundist í Þýskalandi, Bretlandi og Norður-Ameríku. Þetta bendir til þess að heimskautaísinn hefur einhvern tímann verið mun stærri en hann er í dag.

Margar ísaldir hafa skollið á jörðinni í gegnum tíðina. Talið er að sú síðasta hafi hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir um 10.000 árum. Þó var ísöldin ekki eitt samfellt kuldaskeið, því inn á milli komu hlýindaskeið, og hafa fundist merki um 24 slíkar lotur. Þessi hlýindaskeið entust í nokkur þúsund ár í allra mesta lagi áður en ísinn skreið aftur fram. 



​Vísindamenn hafa ekki enn ráðið hvers vegna ísaldirnar skullu á. Á annað hundurð kenningar hafa komið fram, en einungis nokkrar hafa vakið athygli og notið viðurkenningar vísindamanna. 

Sú skýring sem vísindamenn hallast helst að eru kenningar serbneska stærðfræðingsins Milutin Milankovic (1879-1958) um hvernig lotubundin hlýinda- og kuldaskeið komu á ísöldunum. Kenningin sem kallast Milankovic-sveifla segir að afstaða jarðarinnar og sólarinnar breytist reglubundið, sem getur orðið til þess að minna af hitageislum sólarinnar berast til jarðar. 

Þegar jörðin snýst í kringum sjálfa sig hegðar hún sér svipað og risastór skopparakringla. Þú hefur væntanlega tekið eftir því að þegar skopparakringla snýst „teiknar“ pinninn sem upp í henni stendur hring. Þegar jörðin snýst gerist nákvæmlega það sama. Snúningsásinn (jarðmöndullinn) „teiknar“ heilan hring á um 21.000 árum. Þegar norðurendinn snýr að sólinni á sumrin er heitast á norðurhveli en kaldast þegar hann vísar frá (sjá mynd). Jörðin er nú að snúast í burtu frá sólinni.

Möndulhalli jarðar er einnig breytilegur. Hann getur breyst frá 22,1°til 24.5°. Í augnablikinu er hallinn 23,44° og minnkandi. Eftir því sem hallinn er meiri, því sterkari geislun sólarinnar er á norðurheimskautinu. Einnig breytist braut jarðar um sólu frá því að vera nær hringur í sporbaug (ellipsiu) og til baka á um 100.000 ára fresti. Þetta getur breytt magni hitageislunar sem berst til jarðar.



Vitað er að breytilegt magn koltvísýrings og gosefna í andrúmsloftinu getur haft gífurleg áhrif (sjá snjóboltajörð). Má nefna að eftir Skaftárelda (1783-1784) kólnaði loftslag víða um heim. Hafi gosefni borist upp í andrúmsloftið í miklu magni, t.d. í ofureldgosi, getur kólnað snarlega um heiminn. Áhrifin eru sjaldnast langvin, en þó geta gosefnin haldist í andrúmsloftinu árum saman. Mörg efni geta haft þau áhrif að loftslag kólnar. Má nefna að brennisteinn frá eldgosum getur haft þau áhrif.

Heitir hafstraumar hafa auðvitað mikil áhrif. Talið er að Golfstraumurinn hafi legið beint yfir Atlantshafið til Portúgal á kuldaskeiðum, en í norðurátt til Íslands á hitaskeiðum. Þar með gat Norður-Atlantshafi breyst í íshaf á kuldaskeiðum, en verið íslaust á hitaskeiðum.



Að sjálfsögðu gætu einhverjir þættir hafa orsakað ísöld saman. Mikil tíðni eldgosa, lítil geislun og óheppileg staðsetning jarðar miðað við sólina getur t.d. skapað kuldatímabil.​

Pólvelta

Mynd: Wikipedia

Gosefni frá ofureldgosi gætu kælt jörðina um margar gráður.

Mynd: BBC

Menn hafa lengi velt fyrir sér hver hættan er á því að ný ísöld skelli á. Sé litið á þau merki sem náttúran gefur ætti ísöld í raun að vera í fullum gangi núna! Hins vegar lætur hún ekkert bóla á sér.



Þessi staðreynd hefur valdið vísindamönnum heilabrotum. Leitað hefur verið að skýringum lengi og ýmsar kenningar komið fram. Ein sú áhugaverðasta snýr að hrísgrjónarækt. Sú kenning, sem fyrst var sett fram af loftslagsfræðingnum William F. Ruddiman frá Háskólanum í Virginíu í Bandaríkjunum, segir að hin gríðarmikla hrísgrjónarækt í Austur-Asíu hafi átt þátt í því að seinka ísöldinni vegna metans sem losnar frá hrísgrjónastöllunum og koltvísýringsins sem losnar þegar skógar eru brenndir til að stækka akrana. Þessi kenning hefur verið mjög umdeild meðal vísindamanna. Þessi losun samanlögð með þeirri losun sem kom fram í Evrópu eftir iðnbyltinguna á síðan að hafa komið í veg fyrir að loftslag kólnaði. 

Þessi kenning er sérlega áhugaverð sé horft á litlu ísöldina. Litla ísöldin var kuldaskeið sem ríkti frá 13. öld og fram á 19. öld. Loftslag var mun kaldara þá og veturnir harðari. Talið er að hafi ekki verið fyrir iðnbyltinguna og hrísgrjónaræktina hefði litla ísöldin þróast út í „alvöru“ kuldaskeið, þ.e. ísöld. Það útskýrir hvers vegna flest bendir til þess að ísöld ætti að vera í hámarki núna.

 

​Litla ísöldin

​​Litla ísöldin hafði þó mikil áhrif á líf manna. Fyrir utan harða vetra og köld sumur á köflum er talið að litla ísöldin hafi átt mikinn þátt í afdrifum landmáns norrænna manna á Grænlandi og mögulega í Ameríku. Árið 986 settust fyrstu norrænu mennirnir á Grænlandi og er talið að um 3-4000 norrænir menn hafi búið þar er best lét. Lífið var erfitt í þessu hrjóstuga landi. Vitað er að menn ræktuðu hálm, stunduðu nautgriparækt, héldu svín, kindur og geitur og veiddi ísbirni, hreindýr og rostunga þegar tækifæri gafst. Sumarið var þó of stutt til að kornrækt gengi og viður var af skornum skamti. En lífið hélt þó sinn vanagang. Árið 1408 giftist svo Sigríður Björnsdóttir Þorsteini Ólafssyni í kirkjunni i Hvalsey í Eystribyggð. Til er lýsing á þessu brúðkaupi sem er talin mjög merkileg heimild. Þessi lýsing er síðasta lýsingin sem segir frá norrænum mönnum á Grænlandi. Lýsingin barst til Íslands með skipi sem hrakist hafði til Grænlands en sigldi á brott árið 1410. Síðan hefur ekkert til norrænna manna á Grænlandi spurst.

Ískjarnaboranir hafa sýnt að meðalhitinn á Grænlandi fór lækkandi frá og með 14. öld. Þetta rennir stöðum undir kenningar vísindamanna að norræn byggð hafi lagst af á Grænlandi vegna erfiðra lífsskilyrða. Nokkur köld sumur og uppskerubrestir hefðu getað gert út af við þetta viðkvæma samfélag. Þó er enn ráðgáta hvert norrænu mennirnir fóru. Kenningar um ferð manna suður til Norður-Ameríku verða að teljast ósennilegar, þó svo að til séu sagnir um ljóshærða og bláeygða indíána auk þess sem einhverjar norrænar leifar hafa fundist á Nýfundalandi. Sennilegra er að menn hafi lagt af stað aftur til Íslands og Noregs. Þó eru ekki til neinar sagnir um komu manna frá Grænlandi til Íslands. Vísindamenn reyna því enn að ráða þessa miklu ráðgátu.

Reglulega koma fram spár um nýja litla ísöld, m.a. hafa rússneskir vísindamenn varað við því að hiti gæti farið að lækka svo snemma sem á næsta ári, og endað í nýrri lítilli ísöld. Þessar kenningar hafa hlotið mikið lof í eyrum heimsendasinna, en flestir vísindamenn segja lítið benda til þess að hitastigið lækki mikið. Þó vilja vísindamenn ekki loka þeim möguleika að ísöld muni skella á aftur. Þó verður það ekki í fyrsta lagi fyrr en eftir nokkur þúsund ár.

Mögulegar ástæður ísaldar

Hrísgrjónarækt hindrar ísöld

bottom of page